fbpx

Iceland Airwaves snýr aftur

Fyrstu fjórtán, þriggja daga hátíð, og fleira.

 🔹Í dag staðfestum við að hátíðin fer fram í ár, loksins byrjar ballið! – 5. nóvember í miðborg Reykjavíkur.
🔹Í dag tilkynnum við einnig fyrstu fjórtán böndin og ýmsar spennandi nýjungar.
🔹Iceland Airwaves verður nú að þriggja daga hátíð.
🔹Við bjóðum listamönnum og viðburðahöldurum að halda sína eigin viðburði.
🔹Fyrstu tónleikastaðarnir staðfestir.
🔹Þriggja daga hátíðarpassi er á 17.900 kr og við framlengjum það verð; verðhækkunum frestað í bili..
🔹Því fyrr sem þú ert kominn með miða, því fleiri tækifæri bjóðast varðandi forgang og afslætti á alls konar hliðarviðburði í Airwaves vikunni.
🔹Takmarkað magn af pössum verður í boði í ár.
🔹Plus uppfærslan verður á sínum stað en þó í mjög takmörkuðu magni.
🔹Dagpassar verða aftur í boði.

Fyrstu fjórtán böndin tilkynnt í dag

Það kætir okkur meira en orð geta lýst að tilkynna í dag fyrstu fjórtán hljómsveitirnar sem koma fram í ár. Þær eru:

Amyl & the Sniffers Arlo Parks, Arny Margret, Axel Flóvent, Crack Cloud, Daughters of Reykjavík, Eydís Evensen, FLOTT, gugusar, HAM, LÓN, Metronomy, superserious, ZÖE

Arlo Parks er einn heitasti listamaður Bretlands þessa dagana; hún sópaði að sér bæði Brit Awards’ Breakthrough Artist og Mercury verðlaun fyrir plötu ársins í fyrra, og er tilnefnd til tveggja Grammy verðlauna í ár, m.a. Best New Artist. Metronomy er indie band sem er öllum af krúttkynslóðinni vel kunnug; þekkt fyrir hressandi sviðsframkomu. Amyl & the Sniffers er magnað pönkband frá Melbourne sem hefur verið kallað “mest spennandi rokk’n’roll band í áratugi” og Amy Taylor sögð “braka eins og rafmagnssnúra með of mikinn straum” af The Guardian.

Íslensku böndin í þessari tilkynningu eru meðal annars ungi og upprennandi Ísfirðingurinn Árný Margrét sem syngur og spilar á gítar eins og engill, pródúsentinn gugusar sem án efa ein bjartasta von íslenskrar tónlistar, uppáhldis rokkband okkar allra: HAM og nýjasta partíband íslensku alþýðunnar: hljómsveitin FLOTT.

Nú er komið að þér að hlusta. Við erum búin að vinna vinnuna fyrir þig, því hér eru öll böndin á einum Spotify playlista: hér – Njóta!

Iceland Airwaves nú þriggja daga hátíð

Iceland Airwaves hefur tekið stakkaskiptum oftar en einu sinni síðastliðin 20 ár og nauðsynlegt er fyrir leiðandi hátíð á heimsmælikvarða að endurfæðast stanslaust. Á tímum eins og þessum þarf að fara í naflaskoðun, endurskoðun og læknisskoðun. 

Og niðurstaðan var sú að við þurfum að létta okkur. Í ár ætlum við því að straumlínulaga hátíðina og fella niður formlega dagskrá á miðvikudeginum.  Hátíðin fer sem sagt fram frá fimmtudegi til laugardags, 3. – 5 nóvember. Við ætlum að gera minna, en gera það ennþá betur. Í alvöru. Búast má við því að samstarfsaðilar og vinir Airwaves noti tækifærið og setji upp alls konar viðburði og uppákomur á miðvikudeginum en það kemur í ljós síðar. Við hlökkum til að kynna öfluga upphitunar hliðardagskrá á miðvikudeginum þegar nær dregur.

Við trúum því að þessar breytingar og nýjungar geri hátíðina betri, fjölbreyttari og skemmtilegri. En að sjálfsögðu eiga núverandi miðahafar rétt á endurgreiðslu því þeir keyptu miða á fjögurra daga hátíð sem er nú orðin þriggja daga hátíð. Þeir sem hyggjast koma okkur á óvart með því að hætta við að mæta,  þurfa einfaldlega að senda póst á info@tix.is fyrir 6. apríl 2022 til að fara fram á endurgreiðslu. Við verðum sár en jöfnum okkur. Áfram gakk!

Fjölbreytt hliðardagskrá

Það er bannað að láta stuðið minnka og við tökum enga áhættu. Því viljum við opna hátíðina fyrir íslensku tónlistarsamfélagi og rúmlega það; í raun til allra þeirra sem eru með góðar hugmyndir og vilja taka þátt í fjörinu. 

Þetta gerum við með því að bæta við nýjungum sem nefnast partner show og partner venue. Í því felst að aðilar sem vilja halda tónleika, tískusýningu, listasýningu, fatamarkað, ljóðalestur eða hvað annað, í tilefni af Airwaves, í Airwaves vikunni, fá tækifæri til að vera hluti af  Airwaves dagskránni. Með þessu viljum við virkja enn betur þá miklu orku sem skapast í Airwaves vikunni og viljann sem við finnum út um allt, til að vera með.

Viltu taka þátt í Airwaves? Kynntu þér fyrirkomulagið og hafðu samband við okkur ef þú vilt vera memm.

Fyrstu official tónleikastaðirnir staðfestir

Allir tónleikastaðirnir sem þú elskar að hlaupa á milli í Airwaves vikunni eru á sínum stað. Í dag staðfestum við staðina sem eru hornsteininn í hátíðinni:

  • Listasafnið
  • Gamla bíó
  • Iðnó
  • Fríkirkjan
  • Gaukurinn
  • Húrra 

 

Fleiri bætast mögulega við og verða þá kynntir síðar.

Miðaverðið og passamál

Samhliða þessum breytingum höfum við ákveðið að hækka verðið ekki frekar í bili.  Hátíðarpassi kostar í dag 17.900 kr. og undir venjulegum kringumstæðum værum við að hækka það núna, en við frestum því . Einnig skal tekið fram að framboð af hátíðarpössum verður minna en síðustu ár. 

Með tilkomu partner viðburða má búast við því að tækifæri til að fá forgang og/eða afslætti á alls konar hliðaviðburði í Airwaves vikunni fjölgi og því muni það borga sig að tryggja sér armband sem fyrst. Til að nýta þessi tækifæri þarf auðvitað vera búið að tryggja sér fyrst miða á Iceland Airwaves.

Aftur verður boðið upp á dagpassa og reiknum við með að þeir séu komnir til að vera. Ef þú hefur bara tíma eða áhuga á einum degi, þá er það sko í fínu lagi. Komdu og eigðu með okkur eitt ógleymanlegt kvöld. Um mjög takmarkað magn af dagpössum verður þó í boði; fyrstir koma, fyrstir fá. 

Plus uppfærslan verður á sínum stað en framboðið á þeim verður enn takmarkaðra. Ef þú blikkar, missirðu af þeim.

Innan skamms látum við vita hvenær Plus uppfærslan og dagpassar fara í sölu. Við biðjum alla að halda ró sinni þangað til.

Iceland Airwaves stendur með Úkraínu

Við hjá Iceland Airwaves fylgjumst grannt með gangi mála í Úkraínu eins og restin af heiminum. Við erum slegin yfir þeim hörmungum sem ganga yfir fólkið þar en eigum engin orð til að lýsa aðdáun okkar á hugrekki þeirra, staðfestu og samheldni.

Okkur langar til að sýna samstöðu okkar með Úkraínu í verki og erum að vinna í hugmyndum varðandi það en þangað til viljum við benda á hvernig hægt er að hjálpa:

Music Saves UA

Music Saves UA is a project organized by the ALL-UKRAINIAN ASSOCIATION OF MUSIC EVENTS. The All-Ukrainian Association of Musical Events in peaceful times is the largest association of representatives of the music industry in Ukraine. Today, they are focusing all our efforts on rescuing Ukrainian civilians. Humanitarian help center has already been deployed on the premises of Atlas venue in Kyiv and they also help other cities remotely. In the near future they plan to equip a center on the border that will be equipped to provide safe and comfortable conditions for refugees who are fleeing the country.

Read more and donate: https://musicsavesua.com